Fundur var settur og Sigurbjörg Vignisdóttir var kjörin sem fundarstjóri.

Meiri hluti stjórnar mættu, Erla Vilhelmína Vignisdóttir, Ólöf Gyða Risten Svansdóttir, Sigríður Þorgrímsdóttir og Stefán Arnarson. Við byrjun fundar voru alls 10 sem höfðu borgað félagsgjöld HRFÍ og voru þar með kosningarrétt.

Fundurinn var löggildur þar sem hann hafði verið auglýstur á réttum tíma á heimasíður Siberian Husky deildar, á Facebook síðu deildarinnar og á lokaðri Facebook grúbbu fyrir Siberian Husky eigendur innan HRFÍ. HRFÍ voru þó seinir að auglýsa fundinn.

Ólöf Gyða Risten Svansdóttir, ritari, las ársskýrslu deildarinnar fyrir 2015. Kom upp sú spurning hvað Corneal Dystrofi væri, og útskýrði Stefán að það væri hornhimnusjúkdómur sem gæti verið fæðutengdur eða arfgengur. Annars gerðu fundargestir engar athugasemdir við skýrsluna og var hún því samþykkt.

Stefán Arnarson, gjaldkeri, fór yfir ársreikning síðasta stjórnarárs og voru engar athugasemdir gerðar við reikninginn og var hann því samþykktur.

Þrír stjórnarmeðlimir voru að ljúka sínu kjörtímabili og voru því sæti þeirra laus. Ólöf Gyða Risten og Stefán Arnarson voru að ljúka sínu kjörtímabili en buðu sig fram til endurkjörs. Linda Jónsdóttir lauk sínu kjörtímabili en bauð sig ekki fram til endurkjörs. Þórdís Rún Káradóttir bauð sig einnig fram. Þar sem aðeins þrír buðu sig fram voru þeir sjálfkjörnir í stjórn.

Spurði fundargestur um námskeiðið sem Donna Beckman, dómari deildarsýningarinnar mun halda þann 10. apríl, daginn eftir deildarsýninguna. Útskýrt var að um væri að ræða tvö námskeið; eitt sem einblínir á dómara og dómaranema sem vilja taka upp að dæma tegundina, og annað lengra námskeið sem fer yfir sögu Siberian Husky tegundarinnar, ásamt standard, hreyfingu og marga skemmtilega vinkla sem kemur að tegundinni. Donna mun skrifa nánari lýsingu fyrir deildina áður en námskeiðið verður almennilega auglýst. Stjórn stefnir að því að hafa námskeiðið eins ódýrt og hægt er, en enn er ekki komið fast verð þar sem enn er verið að leita af sal til að halda námskeiðin í. Bent var á að búið væri að hafa samband við HRFÍ og gá hvort þau vissu um einhvern sal sem leyfði hunda og gæti nýst undir námskeiðið. Fram að þeim tíma sem fundurinn hafði verið haldinn hafði ekkert svar enn borist frá HRFÍ.

Á síðasta aðalfundi var talað um að nefndir ættu að miðast við hvert stjórnarár og er því kominn tími til að auglýsa eftir fólki í þær fjórar nefndir sem eru innan deildarinnar; fræðslu-, viðburðar-, sýningar-, og vinnunefnd. Mun stjórnin auglýsa stöður í þessar nefndir fljótlega en eins og staðan er í dag þarf að virkja nefndirnar og deildarmeðlimi.

Á deildarfundi sem haldinn var 22. október 2015 var ákveðið að festa útileigu á síðustu helgina í júní, en að þessu sinni yrði það 25-26. Júní. Stungið var uppá litlu tjaldstæði uppi í Kjós. Einnig var stungið uppá Brautarholti og Álfaskeiði (en bent var á að ekki væri rafmagn þar). Aðrar uppástungur eru velkomnar og má senda til stjórnar.

Bent var á að sýnandinn Ida-Helene Sivertsen frá Noregi hefði áhuga á að halda sýnendanámskeið fyrir deildarsýninguna. Hún er mjög virk í sýningarheiminum í Noregi og er nú að ferðast um Evrópu að halda námskeið og sýna hunda. Ida myndi halda námskeiðið á eigin vegum en deildin þyrfti þá aðeins að hvetja fólk til að koma og finna stað til að halda námskeiðið. Mun stjórnin taka málið fyrir á fundi.

Fundi slitið.

Ólöf Gyða Risten Svansdóttir